Umfjöllun og viðtöl: KR - Höttur 86-70 | Loksins sigur hjá KR

Árni Jóhannsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/Hanna
KR-ingar kláruðu seinasta heimaleik sinn í deildinni á móti neðsta liði Hattar frá Egilstöðum í leik þar sem manni fannst sigur heimamanna ekki í hættu en á löngum tímabilum var um spennandi körfuboltaleik að ræða. Lokatölur voru 86-70 en upplegg heimamanna var að gefa yngri leikmönnum tækifæri á mínútum í úrvalsdeild og það skilaði sér margir þeirra nýttu mínúturnar vel á meðan leikmenn Hattar geta einnig labbað í burtu með höfuðið hátt en þeir sýndu afbragðs baráttu og flottan leik.

Fyrri hálfleikur var í járnum mest allan tímann en undir lok hans sigldu heimamenn fram úr og voru með 10 stiga forskot í hálfleik. Það forskot hélst allan þriðja leikhluta og jókst örlítið fyrir lok hans en þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum þá var forskot heimamanna 14 stig og allt stefndi í öruggan sigur. Hattar menn voru þó ætíð með eitthvað í pokahorninu og forysta heimamanna var nöguð til baka í sífellu.

Gestirnir frá Egilsstöðum neituðu að leggja árar í bát en þeir byrjuðu fjórða leikhluta á 11-0 spretti og breyttu leiknum í spennuleik aftur en þegar um þrjár mínútur lifuð af leiknum og munurinn ekki nema þrjú stig þá var komið að þætti Kristófers Acox í leiknum. Þrjár troðslur frá honum ásamt stolnum bolta og þrist gerðu út um leikinn þannig að báðir þjálfarar gátu skipt minni spámönnum inn á og leikurinn lokaðist án annarra teljandi tíðinda.

Afhverju vann KR?

KR-ingar eru bara með betri körfuboltamenn í sínu liði en Höttur frá Egilsstöðum. Heimamenn gáfu ungum mönnum mikinn tíma í kvöld og skiluðu þeir allir flottu dagsverki en þegar munurinn minnkaði þá var alltaf hægt að kalla í reynsluboltana af bekknum til að hjálpa til.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur beggja liða var á köflum mjög stirður en aftur á móti voru flottar sóknarlotur inn á milli. Það sem helst gekk illa þó var vítanýting liðanna en hún var fyrir neðan allar hellur. 69% hjá heimamönnum og 50% hjá gestunum. Hún batnaði þó hjá KR í seinni hálfleik en var stöðugt döpur hjá gestunum.

Bestu menn vallarins?

Kristófer Acox átti flottan leik með 14 stig, 3 blokk og 5 stolna bolta fyrir KR á meðan ungu mennirnir Vilhjálmur Kári Jensson og Veigar Áki Hlynsson nýttu sínar mínútur mjög vel. Vilhjálmur með flotta tvennu þar sem hann skoraði 11 stig og tók 13 fráköst en Veigar fyllti í tölfræðiskýrsluna með 13 stig 5 fráköst og 5 stoðsendingar.

Hjá gestunum átti Sigmar Hákonarson flottan leik með 17 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar en mesta hjálp fékk hann frá Mirko Stefan Virijevic sem skilaði 15 stigum í hús ásamt 11 fráköstum og Brynjari Snæ Grétarssyni sem skoraði 15 stig.

Hvað næst?

Seinasta umferðin fer fram á fimmtudaginn og þá fara KR-ingar í heimsókn til Þorlákshafnar og etja kappi við Þór. Sá leikur verður væntanlega nýttur til að gíra sig upp í úrslitakeppnina.

Höttur fer í Reykjanesbæ og spilar við Njarðvíkinga en seinasta ferð til Reykjanesbæjar skilaði öðrum af tveimur sigrum þeirra og því gæti það orðið fín ferð fyrir strákana frá Egilsstöðum.

Finnur Stefánsson: Verðum að þétta raðirnar fyrir úrslitakeppnina

Hann var ánægður með sína menn þjálfari KR enda langt síðan seinasti sigur kom í höfn í Vesturbænum.

„Við ætluðum ekkert að hugsa um úrslitin í dag, við ætluðum að reyna að fá pínu öðruvísi anda en hefur verið hjá okkur undanfarið og gekk það upp stundum en svo duttum við of oft niður á sama daufa plan og við höfum verið að á undanfarið. Kosturinn var í dag að það voru strákar þarna sem stigu upp og áttu flottar mínútur í dag. Einn af þeim var Veigar Áki Hlynsson en hann er einn af þessum framtíðarmönnum sem við eigum hérna. Hann stóð sig gríðarlega vel með u-16 seinasta sumar og hefur verið jafnt og þétt að bæta sig þannig að það er kærkomið að finna sér tækifæri til að koma þessum strákum inn í leikinn. Það er svo mikilvægt fyrir þá að sýna að þeir eiga erindi í þessa deild“.



Finnur var spurður að því hvort þessi úrslit gerðu eitthvað fyrir KR upp á framhaldið að gera.



„Þetta gerir ekki neitt held ég, við ætlum ekki að dvelja lengi við þennan leik. Það var gott að gefa öðrum mönnum stærri rullu í dag en að öðru leyit þurfum við að fókusa á að spila og gera betur. Við vorum heilt yfir flatir varnarlega og sérstaklega þegar á móti blés og í staðinn fyrir að bíta í skjaldarrendur þá stöðnuðum við og urðum slakari varnarlega. Það böggar mig en ég hef fulla trú á því að það verði í lagi á fimmtudaginn“.



„Miðað við spilamennskuna upp á síðkastið skiptir lokastaðan í deildinni ekki máli. Aðalatriðið er að við náum okkur í smá gang og það var kærkomið að gefa Pavel og Jóni pásu og öðrum mönnum færri mínútur. Lykilatriðið er að þétta raðirnar og vera klárir þegar nýja mótið, úrslitakeppnin, byrjar“, sagði Finnur að lokum þegar hann var spurður að því hvort það að lenda í þriðja eða fjórða sæti skipti máli.



Viðar Örn Hafsteinsson: Mjög ósanngjörn tæknivillan í lokin

Þjálfari Hattar var ánægður með frammistöðu sinna manna og sagði að þeir hefðu þurft einn leik í aðlögun vegna þess að þeir væru orðnir kanalausir og sagði að baráttan, samstaðan og hversu skynsamir þeir voru hafi leitt þá langt í dag.

Viðar var spurður að því hvort hann væri að nýta þessa seinustu leiki til að undirbúa næsta tímabil en Höttur er fallið úr Dominos deildinni.



„Já við erum að bæta okkur í körfu og sem lið og sem klúbbur. Við erum ekkert hættir, við erum enn að berjast hérna, mér er alveg sama þó að þeir hafi hvílt kristalskallana sína þá vorum við komnir hérna til að performa og ná í sigur“.



Hann var spurður út í það hvernig hann sæi seinustu umferðina fyrir sér en hann nýtti tækifærið og fór yfir frammistöðu dómaranna í leiknum í dag og sagði að KR þyrfti ekki á hjálp að halda frá dómurunum.



„Það verður bara meira af því sama hjá okkur fyrir seinasta leikinn við ætlum að berjast og halda áfram að gera vel. Við vorum að gera vel hérna í dag en ég hefði óskað eftir smá hjálp á móti KR í dag, KR-ingar þurfa ekkert á hjálp að halda. Þetta var drullu ósanngjarnt í lokin, ég verð bara að koma því frá mér. Ég skil þá vel að hafa komið og beðist afsökunar en það skipir ekki máli. Þeir hefðu átt að hafa hug í það að taka á þessu á augnablikinu ekki bara að hóta tæknivillum, ég er drullu ósáttur með það“, sagði Viðar en hann var beðinn að lýsa þessu atviki sem hann talar um en í seinasta leikhléi leiksins þá var reikstefna við ritaraborðið sem endaði á því að Viðar fékk tæknivillu sem þjálfari.



„Við vorum undir átta og við biðjum um leikhlé. Aðstoðarþjálfarinn kemur að ritaraborðinu og öskrar, því ég er inn á vellinum, öskrar aftur og aftur og aftur enda ekkert hlustað á hann. Svo öskrar öskrar hann á dómarana og ég öskra á þá, Gunnar Þór gargar á móti svo fer þetta nú að róast en þá vill Einsi Skarp. vera með í partýinu og gefur mér T. Þetta var það ósanngjarnt að þjálfari KR sér sig knúinn að labba hérna yfir að þetta sér rétt hjá okkur og að tæknivillan sé ósanngjörn. Þetta var ekki eitthvað sem sneri leiknum, Kristófer Acox kláraði leikinn og setti upp sýningu þannig að þunglyndir Vesturbæingar hérna á pöllunum fengu bros á vör“.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira